Í ljósi mikils áhuga fagfjárfesta á hlutafjárútboði Avion Group hf. ákvað stjórn félagsins á fundi sínum, 22. desember 2005, að bjóða þeim sem skiluðu inn viljayfirlýsingum viðbótarhluti að söluvirði fjórir milljarðar króna, segir í tilkynningu.

Söluvirði þeirra hluta sem boðnir eru fagfjárfestum hækkar því í 10 milljarða króna. Jafnframt ákvað stjórn félagsins að útboðsgengið yrði 38,3 krónur á hlut, sem eru efri mörk þess verðbils sem áður hefur verið auglýst.

Frestur til að skila inn óbindandi viljayfirlýsingum í hlutafjárútboði Avion Group hf. rann út klukkan 16:00 fimmtudaginn 22. desember 2005.

Alls óskuðu fagfjárfestar eftir að kaupa hluti í félaginu fyrir ríflega 100 milljarða króna að söluvirði sem er sextánföld umframeftirspurn.

Gengið verður frá endanlegri áskrift fyrir klukkan 16:00 í dag, 23. desember 2005.

Andvirði útboðsins verður varið til niðurgreiðslu lána og til að styðja við frekari vöxt Avion Group.

Viðauki við útboðs- og skráningarlýsingu Avion Group hf. sem birt var í Kauphöll Íslands hf. 20. desember 2005 er birtur 23. desember 2005.

Umsjón með hlutafjárútboðinu og skráningu félagsins í Kauphöll Íslands hf. hefur Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf.

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group, sagði um útboðið:

?Þetta eru frábærar viðtökur og framar okkar vonum. Þetta er afar afgerandi staðfesting á því hversu sterkt félag Avion Group er og trú fjárfesta á framtíðarmöguleikum félagsins er mikil."