Bjarni Ármansson, forstjóri Íslandsbanka, segist ekki útiloka að farið verði í hlutafjárútboð hjá bankanum í tengslum við útrásarverkefni bankans. Íslandsbanki hefur nú keypt norska Kredittbanken fyrir 3,5 milljarða króna og verður það greitt með peningum sem Bjarni tók fram að væru til í sjóðum félagsins. "Við eigum fyllilega fyrir þessum kaupum en engin ákvörðun hefur verið tekin um hlutafjáraukningu til að styðja undir útrás bankans. Sú ákvörðun verður tekin í lok ágúst og ég útiloka ekkert í þeim efnum," sagði Bjarni.

Aðspurður um kaupin í Noregi sagði Bjarni að þó að þeir hafi fyrst og fremst horft til innri vaxtar á undanförnum árum þá hefði þeim þótt þetta mjög áhugavert og það væri reyndar í samræmi við yfirlýsingar þeirra á fyrsta ársfjórungi. "Okkur finnst Noregur mjög áhugavert svæði og horfum þar til þeirra breytinga sem líklegt er að verði í norskum sjávarútvegi á næstunni. Einnig skiptir máli að þetta er mjög stór markaður í heild sinni. Sjávarútvegur er sá kjarni sem við sjáum fram á að vaxa útfrá en auðvitað útilokum við ekki önnur svið."

Að sögn Bjarna sjá þeir Íslandsbanka-menn fram á mikil tækifæri til vaxtar í Noregi þó hann segðist á þessari stundu ekki vilja segja til um hvort bankinn hyggðist vaxa hraðar þar en annars staðar. Það myndi velta á þeim fyrirtækjum sem kæmu í samstarf við þá.