Hlutafjárútboð FL Group hefst í dag og alls verður selt hlutafé fyrir 44 milljarða króna á genginu 13,6, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Útboðið er sölutryggt af Kauþing banka og Landsbanka Íslands.

Andvirði hlutafjáraukningarinn verður að hluta til nýtt til þess að greiða fyrir norræna lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines, sem FL Group samþykkti að taka yfir í síðasta mánuði fyrir 15 milljarða. Ekki hefur verið gefið upp í hvað afgangurinn verður nýttur en sérfræðingar eru sammála um að skotsilfur félagsins aukist verulega við hlutafjáraukninguna og möguleiki sé á því að FL Group auki hlut sinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet og jafnvel Íslandsbanka.

Stærstu hluthafar félagsins hafa þegar skuldbundið sig til að kaupa hlutafé fyrir 28 milljarða, en þar af hefur Kauþing banki skráð sig fyrir fimm milljörðum og Landsbanki Íslands fyrir þremur milljörðum, segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að stjórn FL Group hefur ákveðið að gera breytingu á fyrirkomulagi um þáttöku starfsmanna í útboðinu og bjóða fagfjárfestum þau bréf sem starfsmenn hugðust skrá sig fyrir.

Hlutafé að söluverðmæti átta milljarðar króna boðið fagfjárfestum, sem er þremur milljörðum meira en fram kom í tilkynningu félagsins frá 24. október síðastliðinn Verði veruleg umframeftirspurn meðal fagfjárfesta munu bankarnir skerða sinn hlut, segir í tilkynningu FL Group.

?Ástæða breytingarinnar er sú að verulegar líkur eru á að samkvæmt alþjóðareikningsskilastöðlum muni eignarhlutir starfsmanna í félaginu ekki teljast til eiginfjár, þar sem félagið myndi verja starfsmenn fyrir hugsanlegu tapi af þeim viðskiptum. Með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi er það því niðurstaða stjórnar að lykilstarfsmönnum verði frekar veittur kaupréttur að hlutum í félaginu á útboðsgengi en að hafa milligöngu um bein kaup þeirra í útboðinu. Gengið verður frá þessum samningum við lykilstarfsmenn á næstunni," segir FL Group.

Fram kemur á vefsíðu Kaupahallar Íslands að í samræmi við ákvörðun hluthafafundar félagsins frá 1. nóvember síðastliðinn verður fjárfestum heimilt að greiða fyrir hlutina með reiðufé eða hlutabréfum í einhverjum af 10 stærstu félögunum í ICEX-15 vísitölunni.

Tekið verður við hlutabréfum í umræddum félögum í skiptum fyrir hlutafé í FL Group hf., á lokagengi þeirra í gær, miðvikudaginn 9. nóvember.

?Verði breyting á gengi hlutabréfanna á markaði þannig að gengi þeirra á greiðsludegi verði meira en 5% hærra eða lægra en að ofan greinir er stjórn FL Group hf. heimilt að hafna viðtöku viðkomandi hluta sem greiðslu og getur krafist peningagreiðslu í staðinn, en hafnað áskriftinni að öðrum kosti. Stjórn félagsins áskilur sér jafnframt rétt til að hafna framangreindum hlutabréfum sem greiðslu ef það leiðir til þess að FL Group hf. eignast meira en 10% eignarhlut í viðkomandi félagi," segir í tilkynningunni.