Stjórn Actavis Group hf. hefur ákveðið að hækka hlutafé félagins um 344.864.993 hluti eða sem nemur 11,5% af heildarhlutafé félagsins. Heildarhlutafé er 2.993.780.301 hlutir fyrir hlutafjáraukninguna en verður 3.338.645.294 eftir aukninguna. Hinir nýju hlutir verða eingöngu boðnir forgangsréttarhöfum. Stjórnin tók jafnframt ákvörðun um sölu á 198.613.449 eigin hlutum félagsins í forgangsréttarútboðinu. Samtals verða því seldir 543.047.442 hlutir til forgangsréttarhafa eða sem nemur um 18,15% af heildarhlutafé félagsins.

Verð hinna nýju hluta og eigin hluta í útboðinu verður 38,5 kr. á hlut. Áskriftartímabilið verður frá 15. til 23. júní 2005 að báðum dögunum meðtöldum.

Hluthafar, sem voru skráðir í hlutaskrá við lok viðskipta í Kauphöll Íslands 3. júní 2005, þegar hlutaskráin hafði verið uppfærð miðað við þann tíma, eiga rétt til áskriftar að hlutunum.

Hluthöfum verður heimilt að skrá sig fyrir fleiri hlutum en þeir eiga hlutfallslegan rétt til. Hluthafar geta framselt forgangsrétt sinn í útboðinu að nokkru eða öllu leyti. Réttur til umframáskriftar er ekki framseljanlegur.

Íslandsbanki hf. er umsjónaraðili útboðsins og sölutryggir það ásamt Landsbanka Íslands hf. Gjalddagi greiðsluseðla vegna áskriftar í útboðinu verður 30. júní 2005.

Á næstu dögum mun útboðs- og skráningarlýsing fyrir Actavis Group hf. vegna hlutafjáraukningarinnar verða birt í Kauphöll Íslands hf. auk þess sem forgangsréttarhöfum verður sent bréf með nánari upplýsingum um fyrirkomulag útboðsins.