Farið verður í formlegt umsóknarferli um viðskiptabankaleyfi fyrir nýjan banka um leið og Fjármálaeftirlitið hefur gefið grænt ljós á hlutafjárútboð.

Áætlað er að nýr viðskiptabaki sem hefur fengið vinnuheitið Sparibankinn taki til starfa í byrjun október 2011.

Ingólfur H. Ingólfsson, annar aðaleigenda að Fjármálum heimilanna ehf. sem rekur vefsíðurnar spara.is og appleandorange.is., segir að gert sé ráð fyrir að útboðslýsing vegna hlutafjárútboðs verði lagt fyrir Fjármálaeftirlitið í þessari viku. Þegar FME hefur samþykkt útboðslýsinguna verður farið af stað með hlutafjárútboðið.

Þegar það verður klárt verður farið í formlegt umsóknarferli um bankaleyfi. Búist er við að slíkt umsóknarferli gæti tekið 6 til 9 mánuði. Ætlunin er að almenningur geti keypt hluti í félaginu.

Ingólfur segir að slíkur banki þurfi að hafa á bak við sig í upphafi 5 milljónir evra, sem svarar um 800 milljónum króna. Segir hann að ráðgert sé að safna hlutafé fyrir talsvert hærri fjárhæð þannig að eiginfjárstaðan verði góð. Ekki er gert ráð fyrir að félagið verði skráð í Kauphöllinni fyrst um sinn.

-Nánar í Fjármálum einstaklinga, fylgiblaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gær.