Hlutafjárútboð er hafið á vegum félagsins CRI ehf. en það á félagið Carbon Recycling International sem hyggst reisa metanólverksmiðju á Suðurnesjum. Að sögn Andra Ottóssonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs, er ætlunin að safna átta milljónum bandaríkjadala til að reisa verksmiðjuna.

Er bæði um að ræða hlutafé og lánsfé og hefur KPMG aðstoðað við útboðið sem er til forkaupsréttarhafa. Útboðsgengið mun vera 5,5 dalir á hlut. Að sögn Andra er stefnt að því að taka fyrstu skóflustunguna að verksmiðjunni í október. Carbon Recycling stefnir að því að vinna metanól úr vetni og koltvísýringi auk þess að geta tekið þátt í kolefnissparnaði þegar fram líða stundir. Félagið er í eigu íslenskra og erlendra aðila en meirihlutaeigu Íslendinga.

Að sögn Andra vonast menn til að fá nóg fjármagn til að fara af stað núna en allar tæknilausnir liggja fyrir. Er þess vænst að það taki um 14 mánuði eftir skóflustungu að fara af stað með framleiðslu.

Fyrsta verksmiðjan

Ætlunin er að reisa verksmiðjuna við hlið raforkuvers HS Orku í Svartsengi. Þar er ætlunin að vinna koltvísýring úr jarðgufu og framleiða vetni með raforku frá verinu til að búa til metanól. K. C. Tran, framkvæmdastjóri CRI, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir skömmu að þetta verði fyrsta verksmiðjan í heiminum sem framleiðir metanól með þessum hætti. Hafa vísindamenn CRI fengið einkaleyfi á Íslandi á aðferðinni.

Metanólið sem framleitt verður í Svartsengi verður notað til að blanda í bensín. Búið að gefa leyfi fyrir tilraunaverksmiðju við Svartsengi og er verið að vinna uppkast að viljayfirlýsingu milli CRI og Grindavíkurbæjar um framhaldið. K. C. Tran sagði í áðurnefndu viðtali að náið sé unnið með íslenskum yfirvöldum sem og bæjaryfirvöldum í Grindavík og Reykjanesbæ.t í kolefnissparnaði þegar fram líða stundir.

Meðal hluthafa er verkfræðistofan Mannvit sem er aðalhönnuður verksmiðjunnar.