Hlutafjárútboð Icelandair Group Holding hefst í dag og mun ljúka 4. desember. Heildarfjárhæð útboðsins er 4,995 milljarðar króna eða um 18,5% hlutafjár í félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Útboðið fer þannig fram að starfsmenn eiga kost á að kaupa fyrir samtals 945 milljónir króna, almenningur fyrir samtals 1.08 milljarðar króna og fagfjárfestum stendur til boða að kaupa fyrir samtals 2,97 milljarða króna.

Hlutafé félagins er einn milljarður króna og verðið í útboðinu er það sama til allra eða 27 krónur á hlut að því er kemur fram í Morgunkorni Glitnis.  Reiknað er með að viðskipti með bréf félagsins hefjist 14. desember. Glitnir banki og Straumur-Burðarás munu sjá um viðskiptavakt á hlutabréfum í Icelandair Group Holding.

Innan samstæðunnar eru flest þau félög sem voru dótturfélög Flugleiða áður en það félag breytti nafni sínu í FL Group í takt við aukna áherslu á fjárfestingastarfsemi. Greiningardeild Glitnis bendir á að þannig snúist starfsemi Icelandair samstæðunnar einkum að farþega-, frakt- og leiguflugi auk flugvélaviðskipta og ferðaþjónustu. Mest er umfang millilandaflugsins þar sem félagið starfar á þremur aðskildum mörkuðum. Þetta eru farþegaflug frá Íslandi (um 28% heildarfarþega), til Íslands (36%) og flug yfir Norður-Atlantshaf gegnum Ísland (36%).