Hlutafjárútboði líftæknifyrirtækisins PCI Biotech er nú lokið, en með hlutafjáraukningunni aflaði fyrirtækið sér 70 milljóna norskra króna eða um 941 milljóna íslenskra króna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Beringer Finance sem sá um útboðið.

„Alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa hluti fyrir 62,9 milljónir norskra króna á nafnvirði en í boði voru hlutir fyrir 30 milljónir norskra króna að nafnvirði,“ segir í tilkynningunni.

„Umframeftirspurn nam því um 110% af þeim hlutum sem í boði voru. Heildarhlutafé félagsins að lokinni aukningunni er 74,7 milljónir norskra króna að nafnvirði. Beringer Finance hafði umsjón með útgáfu og sölu nýrra hluta.

Um PCI Biotech

PCI Biotech er norskt líftæknifyrirtæki sem þróar nýjar aðferðir fyrir meðhöndlun krabbameina byggt á eigin tækni í ljósörvaðri upptöku. PCI Biotech er skráð á markað í kauphöllinni í Ósló.

Um Beringer Finance

Beringer Finance á sér rúmlega 100 ára sögu sem traustur fjárfestingarbanki með áherslu á Fyrirtækjaráðgjöf og Markaðsviðskipti. Á síðastliðnum 20 árum hefur Beringer Finance lokið yfir 300 verkefnum að samanlögðu verðmæti viðskipta yfir ISK 2500 milljarða, allt frá stórum alþjóðlegum viðskiptum að smærri svæðisbundnum verkefnum.

Í júní 2016 var tilkynnt um samruna Beringer Finance AB og Fondsfinans AS, en í dag starfa rúmlega 80 starfsmenn í starfsstöðvum bankans í Osló, Stokkhólmi, Reykjavík, Palo Alto og New York (Fondfinans Inc).“