Hagnaður danska stórbankans Danske Bank á lokafjórðungi síðasta árs var 1.448 milljónir danskra króna fyrir skatt og batnaði um 160 milljónir frá sama fjórðungi árisns 2009. Þrátt fyrir þetta var afkoman umtalsvert undir væntingum greiningaraðila sem samkvæmt meðalspá SME Direkt höfðu búist við hagnaði upp á 2.723 milljónir danskra króna. Sérstaklega var það afkoma af miðlun sem var undir væntingum. Hagnaður bankans á árinu 2010 í heild nam 3.664 milljónum danskra króna.

Stjórn bankans leggur til að enginn arður verði greiddur úr fyrir árið 2010 en greinendur höfðu búist við að arður yrði um 72 danskir aurar á hlut að sögn di.se . Sömuleiðis leggur stjórnin til að nýtt hlutafé verði gefið út að andvirði 20 milljarða danskra króna. Þá hefur stjórn bankans sótt um að fá að leysa inn breytanleg lán frá ríkinu en saman munu þessi lán og hlutafjáraukningin gera bankann að einum þeim best fjármagnaða í Evrópu skv. tilkynningu frá bankanum.

Stjórnarformaður bankans, Alf Duch-Pedersen, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi bankans.