Framtakssjóður Íslands og Íslandsbanki ætla að selja 25% hlut í N1 í almennu hlutafjárútboði sem fara á fram dagana 6.-9. desember næstkomandi. Í kjölfarið er stefnt að skráningu N1 í Kauphöll.

Fram kemur í tilkynningu frá N1 að fjárfestum standa til boða tvær áskriftarleiðir. Annars vegar verður 10% í félaginu boðin á verðbilinu 13,5-15,3 krónur á hluta og geta áskriftir í þeim hluta verið að andvirði frá 100 þúsund krónum og upp í 10 milljónir. Hins vegar verður tekið við áskrifum að andvirði yfir 10 milljóna króna. Hver áskrift getur numið að hámarki 15% í félaginu. Lágmarksverðið í þeim hluta útboðsins er 15,3 krónur á hlut. Miðað við þetta er markaðsverðmæti N1 á bilinu 13,5-15,3 milljarða króna.

Þá segir í tilkynningunni að Framtakssjóðurinn gerir ráð fyrir að eiga 20,9% hlut í N1 eftir útboðið. Íslandsbanki mun eiga 4,35-7,35%.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll en Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annast sölu og markaðssetningu á útboðinu.