Stjórn Nýherja ákvað fimmtudaginn 3. desember að bjóða út allt að 40 milljónir hluta að nafnvirði, eða sem nemur um 9,76% aukningu, í lokuðu hlutafjárútboði til hæfra fjárfesta. Tilgangurinn er að bæta eiginfjárstöðu félagsins.

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, segir útgáfuna hafa verið rökrétta niðurstöðu í lengri endurskipulagningu.

„Okkar stærsta og mikilvægasta viðfangsefni einmitt núna er að bæta eiginfjárstöðu félagsins. Við höfum tekið það í nokkrum skrefum, allt frá því að við hófum endurskipulagningaráætlanir okkar fyrir tveimur árum,“ segir Finnur.

„Þá gáfum við það út að við myndum vinna þetta í þremur leiðum: með því að bæta reksturinn, selja mögulega eignir og með því að skoða útgáfu á hlutafé. Við erum búin að selja eignir, reksturinn hefur verið bættur, svo þessi litla útgáfa er rökrétt niðurstaða.“

Gengi bréfa Nýherja hefur hækkað um ríflega 300% á árinu. Gengi bréfanna 2. janúar 2015 var 5 krónur á hlut en mældist 3. desember í 15 krónum hver hlutur.