Rúmlega tvöföld eftirspurn var í nýloknu hlutafjárútboði Reita á alls 120 milljónum nýjum hlutum en útboðsgengið var 43 krónur og nam hlutafjáraukningin því rúmlega fimm milljörðum króna. Í útboðinu bárust áskriftir fjárfesta fyrir rúmlega 11,8 milljarða króna eða um 275 milljónum nýjum hlutum. Rúmlega tíu milljarðar tilheyrðu forgangsréttarhluta útboðsins.

„Það er ánægjulegt að sjá það mikla traust og þann áhuga sem fjárfestar hafa á Reitum sem niðurstaða útboðsins ber með sér. Þessi niðurstaða hvetur Reiti áfram í þá vegferð sem fram undan er, til hagsbóta fyrir hluthafa félagsins, viðskiptavini og aðra hagaðila,“ var haft eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóri Reita í tilkynningu félagsins.

Arctica Finance hf. var umsjónaraðili útboðsins en Íslandsbanki var félaginu einnig til ráðgjafar. Gert er ráð fyrir að viðskipti með hina nýju hluti hefjist á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. eigi síðar en þann 16. nóvember næstkomandi.