Kínverska fyrirtækið Geely, eigandi Volvo, hyggst fresta hlutafjárútboði sænska bílaframleiðandans vegna óvissu um virðismat þess í ljósi yfirvofandi tollastríðs á heimsvísu.

Til stóð að skrá félagið á markað og selja hluta þess fyrir árslok, og Geely taldi sig hafa tryggt sér stuðning til að skrá félagið með heildarmarkaðsvirði upp á 30 milljarð dollara, um 3.360 milljarða íslenskra króna.

Nú hefur Geely hinsvegar áhyggjur af því að eftir skráningu á því gengi gætu hlutabréf félagsins fallið vegna áhyggja fjárfesta af yfirvofandi tollastríði, og valdið þáttakendum í útboðinu – en meðal þeirra sem til stóð að tækju þátt voru margir sænskir lífeyrissjóðir – fjárhagslegu tjóni.

Hakan Samuelsson, framkvæmdastjóri Volvo, sagði í samtali við Financial Times að það væri „mikilvægt að vita að við höfum smá svigrúm upp á að hlaupa svo við getum horfst keikir í augu við fjárfesta ári eftir útboðið.“