Hlutafjárútboði Icelandair Group Holding hf. lýkur í dag. FL Group samdi í haust við Glitni um umsjón með sölu Icelandair Group og nýir eigendur komu að félaginu í október. Í aðdraganda útboðsins til almennings sem lýkur í dag höfðu fagfjárfestar, lífeyrissjóðir, stjórnendur og starfsmenn félagsins keypt samtals um 85% hlutabréfa í félaginu eins og kemur fram í tilkynningu þess. Allir hafa keypt hlutabréf á sama verði og gildir í útboðinu, 27 krónur á hlut.

Stærstu hluthafar Icelandair Group eru Langflug ehf. sem á 32% hlutafjár, Naust ehf. sem á 14,8% og Fjárfestingafélagið Máttur ehf. sem á 11,1%.

Icelandair Group er eignarhaldsfélag með 13 sjálfstæðum rekstrarfélögum, sem einkum snúa að flugrekstri og ferðaþjónustu. Starfsmenn félagsins eru 2.700 og velta félagsins á þessu ári er áætluð 54 milljarðar íslenskra króna. Rekstri félagsins er skipt í 3 meginsvið; Áætlunarflug millilanda, leiguflug á erlendum mörkuðum og ferðaþjónustu á Íslandi. Meginundirstaða rekstrarins er millilandaflug Icelandair sem byggir á tengiflugi milli Evrópu og Ameríku með megináherslu á Ísland. Félagið flýgur til 25 áfangastaða beggja vegna hafsins og flutti á seinasta ári um eina og hálfa milljón farþega.