Útgáfa nýs hlutafjár er, að mati íslenskra fjármálastjóra, hagkvæmasta fjármögnunarleiðin sem þeim stendur til boða. Er þetta meðal niðurstaðna könnunar Ráðgjafarsviðs Deloitte meðal fjármálastjóra stærstu fyrirtækja á Íslandi sem framkvæmd var í apríl.

Könnunin var sett á laggirnar að fyrirmynd Deloitte á alþjóðavísu og tilgangur hennar er að sýna mat fjármálastjóra á stöðu fyrirtækja og efnahagsumhverfisins. Þessi könnun er gerð tvisvar á ári. Sendur var spurningalisti til fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.

Í könnuninni voru fjármálastjórarnir m.a. beðnir að meta það hversu hagkvæmar nokkrar mismunandi fjármögnunarleiðir væru að þeirra mati. Um 76% töldu útgáfu nýs hlutafjár hagkvæma fjármögnunarleið fyrir fyrirtæki á meðan aðeins 34% töldu bankalán hagkvæma leið. Skiptingin var jafnari varðandi útgáfu skuldabréfa, en um 55% fjármálastjóra töldu slíka útgáfu hagkvæma fjármögnunarleið fyrir fyrirtæki við núverandi aðstæður. Varðandi bankalánin sagði 71% aðspurðra að álag banka á grunnvexti vegna lánveitinga væri of hátt og skýrir það eflaust að hluta til a.m.k. neikvæða afstöðu þeirra til bankalána sem fjármögnunarleiðar.