Hlutabréf skandinavíska flugfélagsins SAS eru þau hlutbréf á Norðurlöndunum sem eru mest skortseld. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Þriðjungur þeirra bréfa sem í boði eru til skortsölu, þ.e. ekki þau bréf sem er í eigu ríkissjóða og nokkurra annarra hluthafa - aðallega stofnannafjárfesta, eru nú skortseld. Danska ríkið og sænska ríkið eiga hvort um sig 21,8% hlut.

Þessi mikla skortsala bendir til þess að fjárfestar telji að ekki verði hægt að bjarga félaginu sem stendur frammi fyrir gríðarlegum fjárhagsvanda og verkfallsboðun flugmanna þann 29. júní.

Hlutabréfin í SAS hafa hrunið undanfarnar mánuði.

En Danir vilja bjarga - og hugsanlega Norðmenn

SAS þarf sækja sér 6,7 milljarða danskra króna í hlutafé eða 124 milljarða íslenskra króna. Sænsk stjórnvöld hafa gefið út þá yfirlýsingu að sænski ríkissjóðurinn ætli ekki að kaupa fleiri hlutbréf í félaginu eða leggja fé til félagsins í öðru formi.

Nicolai Wammen fjármálaráðherra Danmerkur og þingmaður Jafnaðarmanna sagði hins vegar fyrir nokkrum dögum að dönsk stjórnvöld myndu styðja við félagið ef einkafjárfestar kæmu að björgun þess. Sagði hann að það kæmi til greina að danska ríkið eignaðist allt að 30% í félaginu.

Það sem eykur líkurnar á björgun SAS er sú staðreyndin að hægri flokkurinn Venstri styður frekari framlög til SAS. Þar með eru allir stærstu stjórnmálaflokkar Danmerkur sammála um að bjarga flugfélaginu.

Norska ríkisstjórnin seldi öll sín hlutabréf í félaginu árið 2018. En síðan þá hafa orðið stjórnarskipti og Jafnaðarmannaflokkurinn tekið við stjórnartaumunum. Í byrjun mánaðarins útlokaði viðskiptaráðherra Noregs ekki að norski ríkisjóðurinn kæmi að björgun flugfélagsins. Ekki endilega með hlutafjárframlagi heldur hugsanlega lánveitingu, en SAS skuldar norska ríkissjóðnum þegar í tengslum við almennar aðgerðir í Noregi vegna Covid-19.