Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% milli september og október, og árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 4,1%. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Verulega hefur hægt á hækkun raunfasteignaverðs, en 12 mánaða hækkun þess nam 1,7% í október, samanborið við 21,7% í fyrra og 14,7% árið 2016.

Fjöldi viðskipta hefur hinsvegar verið að aukast. Meðalfjöldi viðskipta frá júlí til október var 650, en á sama tímabili í fyrra var hann 540, og 610 árið þar á undan.

Þá hefur sala nýrra íbúða aukist mikið nýverið. Hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum frá áramótum er mun hærra en í fyrra. 19% viðskipta á höfuðborgarsvæðinu með fjölbýli voru nýjar íbúðir, samanborið við aðeins rúm 5% í fyrra.

Þessi aukning hlutdeildar nýrra íbúða er sögð halda uppi fasteignaverði, enda sé fermetraverð nýrra íbúða að jafnaði um 17% hærra en þeirra sem eldri eru.