Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 426,1 milljarði króna í lok maí og hækkaði um 12,5 milljarða í mánuðinum.

Þetta kemur fram í Hagtölum Seðlabankans.

Erlend verðbréf jukust um 6,4 milljarða í maí og seðlar og innstæður jukust um 6,3 milljarða en samtals nema erlend verðbréf og seðlar og innstæður 97,3% af gjaldeyrisforðanum.

Í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri í maí nam 5,2 milljörðum króna. Þar af var velta Seðlabankans rúmir 2 milljarðar króna og var því hlutdeild Seðlabankans í heildarveltunni tæp 40%.

„Hlutdeild Seðlabankans er nú svipuð og á tímabilinu frá desember 2008 til febrúar 2009. Seðlabankinn hafði aftur á móti lítil afskipti af gjaldeyrismarkaðnum í mars en þá féll krónan um 10,5% frá upphafi til loka mánaðarins,“ segir í Hagsjá.   Í hagtölum Seðlabankans sést enn fremur að meðalmánaðarveltan á millibankamarkaði með gjaldeyri það sem af er ári (4,1 milljarður króna) er innan við 1% af meðalmánaðarveltu áranna 2007 og 2008 (516 milljarðar).