Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins er áhrifamatskafli frumvarpsins um hlutdeildarlán, sem aðstoða á ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð, ófullnægjandi og þá einkum hvað varðar fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Þetta kemur fram í umsögn um frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent frá sér. Þar kemur einnig fram að rýmkun á aðgengi að lánsfé geti leitt til hækkunar húsnæðisverðs og þannig unnið gegn markmiðum aðgerðanna.

Aðgerðirnar gætu komið til með að ógna fjármálastöðugleika enda „hafa miklar vaxtalækkanir stutt við hækkun húsnæðisverðs að undanförnu,“ en með aðgerðunum myndi tiltekinn hópur lántaka þurfa 5% eigið fé við kaup húsnæðis. Almennt gildir að það þurfi 10-15% en lánin yrðu einnig á hagstæðari kjörum en nú fást á markaði.

Málið umdeilt

Líkt og Viðskiptablaðið fjallað um í síðustu viku er ekki einhugur meðal stjórnarmeirihlutans um málið. Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru efasemdir um að frumvarpið tryggi nægilega jafnræði meðal kaupenda.

Innan verkalýðshreyfingarinnar hefur verið kallað eftir því að frumvarpið verði keyrt í gegn í haust. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur meðal annars hótað því að ef lög um hlutdeildarlán verði ekki samþykkt verði lífskjarasamningunum sagt upp.

Kostnaður allt að 40 milljarðar króna

FJR skiptir kostnaði ríkissjóðs vegna frumvarpsins í þrjá hluta. Í fyrsta lagi hlýst kostnaður vegna fjármögnunar á verkefninu, sem sagt aukin lántaka. Í öðru lagi má líta á vaxtasparnað heimilanna sem beinan styrk frá ríkissjóð líkt og vaxtabætur.

Í þriðja lagi er nefnt endurheimt ríkissjóðs af lánunum sem tengd er við húsnæðisverð til framtíðar. Mikil óvissa ríkir um þróun húsnæðisverðs en lækkun húnsæðisverðs gæti leitt af sér verulegan kostnað fyrir ríkissjóð. Engin umfjöllun er um stöðu ríkissjóðs með tilliti til áhættustýringar.

Frumvarpið er einnig gagnrýnt þar sem engin umfjöllun er um áhrif þess á skuldir ríkissjóðs sem skipt er í þrennt. Samkvæmt FJR gæti heildarskuldsetning ríkissjóðs vegna frumvarpsins numið allt að 40 milljörðum króna, að auki viðbættum áföllnum vöxtum.

Hlutdeildarlánin verða bæði afborgana- og vaxtalaus og myndi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) því ekki fá neinar tekjur af lánunum. Á meðan þarf samt sem áður að standa undir rekstrar- og fjármögnunarkostnaði.

Vextir munu samt sem áður leggjast á lánin ef tekjur lántaka eru umfram tekjumörk samfellt síðastliðin þrjú ár. Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun myndi ákvarða vextina og skyldu þeir taka mið af húsnæðiskostnaði lántaka, hins vegar er ekki útskýrt fyllilega hvað er átt við með því í frumvarpinu.