Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) mun úthluta fyrstu hlutdeildarlánunum í vikunni, en lánunum er ætlað að styðja tekjulága til kaupa á hagkvæmu húsnæði.

Alls bárust HMS 191 umsókn um hlutdeildarlán fyrir fyrstu úthlutun, þar af 129 umsóknir á höfuðborgarsvæðinu og 62 umsóknir á landsbyggðinni, en töluverður hluti umsóknanna lýtur að lánsvirði, án fyrirliggjandi kaupsamnings, að því er fram kemur í umfjöllun í viðskiptakálfi Morgunblaðsins í dag.

Fram kemur að íbúðir sem uppfylla skilyrði lánveitinga seljist vel. Þannig séu fimm þeirra ellefu íbúða sem uppfylla skilyrðin á Laugavegi 145 þegar seldar, ellefu af fjórtán íbúðum á Grensásvegi 12.

Hlutdeildarlánum kemur til með að verða úthlutað sex sinnum á ári, en önnur úthlutun mun fara fram síðar í mánuðinum vegna umsóknartímabilsins 21. nóvember til 13. desember. Áformað er að lána fyrir allt að fjóra miljjarða á ári næstu tíu árin og verða lánin fjármögnuð með heimild í fjárlögum.