Hlutfall útborgaðra launa heimilis sem varið er til afborgana af fasteignalánum er í dag að jafnaði um fimmtungur eða 20-21% en stuttu eftir efnahagshrunið var það heldur minna eða 18%.

Hlutfallið nú er í takti við það sem var fyrstu ár aldarinnar eða milli um 2000 til 2004, að því er fram kemur í efnahagsyfirliti VR. Jaframt kemur þar fram að eignir Íslendinga hafi þróast með ólíkum hætti síðustu áratugina eftir því hvaða aldurshópa horft sé til.

Skuldsetning og eignir eldri aukast hraðar

Má þar nefna að eignir 67 ára og eldri hafa aukist um tæp 58% umfram eignir 30-34 ára á tímabilinu 2007 til 2015. Svipuð mynd fáist ef horft sé til skuldsetningar, en meðalupphæð skulda hefur hækkað meira meðal eldri aldurshópanna en þeirra yngri.

„Þetta er möguleg birtingarmynd þess hve erfitt það hefur verið fyrir yngri aldurshópana að eignast fyrstu fasteign árin eftir hrun,“ segir í frétt VR um yfirlitið en þar eru fleiri atriði úr því nefnd.

Ódýrara en í Danmörku

„Neyslumynstur, þ.e. hversu stóru hlutfalli útgjalda heimils er varið í tiltekna vöru eða þjónustu, er svipað því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.

Hlutfall útgjalda vegna húsnæðis, hita og rafmagns er lægra en í Danmörku en hærra en í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Fjölgun erlendra félagsmanna

Fjölgun félagsmanna VR undanfarin 2 – 3 ár, og þar með starfandi einstaklingum, má skýra í auknum mæli sem fjölgun félagsmanna með erlent ríkisfang.

Þróunin er þó ekki jafn hröð og árin fyrir hrun. Fjöldi félagsmanna VR með erlent ríkisfang jókst mjög hratt árin 2006 og 2007. Frá 2012 hefur þeim fjölgað jafnt og þétt.