*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 8. mars 2017 10:21

Hlutfall erlendra eigna of lágt

Ólafur H. Jónsson, formaður stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins segir að erlendar eignir ættu að vera í kringum 40%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Erlendar eignir Almenna lífeyrissjóðsins eru um 25% af eignasafni hans, en Ólafur H. Jónsson, stjórnarformaður sjóðsins segir hlutfallið of lágt.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hafa aðrir forystumenn í lífeyrissjóðum tekið undir hugmyndir Bjarna Benediktssonar um gólf á erlendar fjárfestingar sjóðanna.

Hlutfallið nú fjórðungur

„Í okkar tilfelli er um fjórðungur af okkar eignum erlendar eignir og þær þurfa að aukast,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

„Við vitum vitanlega af hverju hlutfallið er svona lágt, en það er vegna þess að okkur hefur ekki verið gert kleift að fara með fjármuni úr landi, vegna haftanna.“

Ólafur, sem starfar sem öryggisstjóri Skeljungs, segir að hann gæti vel séð fyrir sér að með því að setja gólf á erlendar fjárfestingar sjóðanna erlendis myndi hlutfallið hækka sem og ef gjaldeyrishöftin yrðu afnumin.

Hlutfall eignasafna frá 0-60% erlendis

„Við erum með sjö eignasöfn í okkar lífeyrissjóði og hlutfall erlendra eigna í þeim er frá því að vera 0% upp í 60%," segir Ólafur.

„Einhvers staðar þarna á milli er markmið okkar hvað varðar skiptingu á milli erlendra og innlendra eigna og ég hygg að það geti verið í kringum 40% að meðaltali.“

Ólafur bendir þó á að hér sem annars staðar séu aðstæður breytilegar og ef gólfið á erlendar fjárfestingar yrði of hátt gæti það valdið einhverjum sjóðanna vandræðum.

Þó segir hann að það myndi sennilega ekki eiga við um Almenna lífeyrissjóðinn því hann sé bæði með samtryggingar og séreignir.

Tekur undir að sjóðirnir sé mjög fyrirferðamiklir

Tekur hann jafnframt undir orð Bjarna um að lífeyrissjóðirnir séu mjög fyrirferðarmiklir í íslensku atvinnulífi, en hann segir það vitanlega vera vegna haftanna.

„Við teljum að með þeirri útrás sem virðist vera að opnast fyrir fjármagn frá landinu, muni það hlutfall lækka," segir Ólafur. „Það eru líka fá fyrirtæki á markaði hér og fleiri og þannig verða ítök sjóðanna í hverju félagi væntanlega minni.

Ég fagna þeirri úttekt sem forsætisráðherra boðar á lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Ég held að ekkert nema gott geti komið út úr því að það fari fram greining á starfseminni, þar sem allir fletir eru skoðaðir ofan í kjölinn.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is