Rúmlega helmingur íslenskra fyrirtækja er eingöngu með skuldir í krónum. Hlutfallið mun líklega hækka á næstu misserum, að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í gær.  Fyrir bankahrunið sl. haust voru u.þ.b. 70 prósent af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja í erlendum gjaldmiðli. Þetta er töluvert hátt hlutfall en "meira máli skiptir hvernig þær skuldir dreifast og hversu hátt hlutfall fyrirtækja með skuldir í erlendum gjaldmiðli hafa ekki gjaldeyristekjur til þess að standa undir greiðslubyrði af skuldunum" segir orðrétt í umsögn Seðlabankans.

Enn fremur segir að flest stór og meðalstór fyrirtæki séu með gengisbundin lán og flest fyrirtæki sem eru eingöngu með lán í krónum eru lítil. Í ljósi þess að líftími lána í erlendum gjaldmiðli er almennt stuttur og aðgengi að erlendu lánsfé takmarkað er líklegt að hlutfall fyrirtækja með gengistryggð lán muni lækka á næstunni. Fyrirtæki með tekjur í erlendum gjaldeyri munu þó áfram geta varið gjaldmiðlaáhættu hafi þau aðgang að gengistryggðum lánum.