Í umfangsmikilli könnun á ferðavenjum Reykvíkinga kemur fram að hlutfall strætóferða af heildarferðum hefur ekki aukist síðan árið 2011 og stendur því í stað í 4% af ferðum miðað við árið 2014, þegar það var 5% lækkar hlutfallið um 1 prósentustig. Heildarfjöldi ferða með strætó hefur þó fjölgað úr 9,0 milljónum árið 2011 og í 11,7 milljónir árið 2017.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að ferðamátaval Reykvíking hafi lítið breyst frá fyrri könnunum en sýni almennan vöxt í samgöngum. Íbúar fara samkvæmt könnuninni að meðaltali 4,1 ferð á hverjum virkum degi en af því megi leiða að um 217 þúsund íbúar höfuðborgarsvæðisins fari samtals um 890 þúsund ferðir á hefðbundnum virkum degi.

Í Reykjavík voru 73% allra ferða farnar á einkabíl samkvæmt könnuninni og 4% ferða voru farnar með strætisvögnum. Íbúar fóru um 16% ferða sinna gangandi sem er sama hlutfall og árið 2011 en það var 18% árið 2014 og 20% árið 2002.

Hlutdeild hjólreiða í ferðum Reykvíkinga fer hækkandi var 7%, hækkaði úr 6% árið 2014 og 5% árið 2011. Þá er vert að nefna að 12% hjóla allt árið um kring, 46% hjóla hluta úr ári en 42% hjóla aldrei.

Eins og fyrri kannanir sýna er umtalsverður munur á ferðamátavali eftir hverfum borgarinnar. Íbúar í Vesturbæ og Hlíðum fóru 10% ferða sinna hjólandi og 20-24% ferða sinna gangandi. Hlutdeild einkabíla í ferðum íbúa miðborgar, Hlíða og Vesturbæjar er samkvæmt könnuninni á bilinu 57% til 65%. Í öðrum hverfum borgarinnar er hlutdeild einkabíla meiri.