Frá því í júli 2008 hefur verið heimild til lækkunar stimpilgjalda vegna fyrstu íbúðarkaupa, og eru því til tölur yfir hve stór hluti íbúðarkaupa teljist til fyrstu kaupa viðkomandi kaupenda frá þeim tíma.

Var hlutfall fyrstu kaupa fyrir annan ársfjórðung þessa árs 24% allra kaupa á höfuðborgarsvæðinu, en náði hæst 33% á Suðurnesjum og Norðurlandi Vestra. Lægsta hlutvallið er á Suðurlandi og Norðurlandi eystra þar sem það er 22%.

Á sama tímabili fyrir árið 2009, var hlutfall fyrstu kaupa á höfuðborgarsvæðinu einungis 7%. Hefur það síðan farið hækkandi smátt og smátt síðan nema að milli áranna 2013 og 2014 hélst hlutfallið í 18%.

Að jafnaði virðast fyrstu kaup ná hæsta hlutfallinu á 2. ársfjórðungi ef horft er á höfuðborgarsvæðið og miðað er við tölur frá árinu 2009. Er það gert því ljóst er að hlutfall fyrstu kaupa á þriðja ársfjórðungi ársins 2008 var óvenjuhátt miðað við sömu ársfjórðunga á eftir, þegar það var 23%, og má ætla að einhverjir hafi beðið með kaup þangað til eftir að lögin tóku gildi.