Atvinnulausu fólki með háskólamenntun hefur aðeins fækkað um 30% á meðan atvinnulausum með grunnskólapróf hefur fækkað um 60% og atvinnulausum meðal fólks með iðnmenntun um 70%. Þetta kemur fram í greiningu Ara Skúlasonar, hagfræðings við hagfræðideild Landsbankans, sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt greiningunni hefur hlutfall háskólamenntaðra í hópi atvinnulausra aukist frá því sem var árið 2010 þegar atvinnuleysi var hvað mest. „Atvinnuleysi síðustu ára hefur bitnað einna verst á háskólamenntuðu fólki, sérstaklega háskólamenntuðum konum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann.

Hann segir að það líti út fyrir að erfiðara gangi að skapa störf fyrir háskólamenntaða en aðra. „Ég ímynda mér að hluti af þessu tengist niðurskurði hjá hinu opinbera þar sem störf hafa verið lögð niður sem ekki hafa verið búin til aftur. Í mörgum tilvikum er þar um konur að ræða.“