Árið 2016 voru einungis 10,6% af gestum á hótelum landsins íslenskir. Þrátt fyrir að fleiri Íslendingar bóka sér hótelgistingu, þá hefur fjöldi ferðamanna haft þau áhrif að hlutfall íslenskra hótelgesta hefur snarminnkað. Frá þessu er greint í frétt á vef Túrista.is.

Rétt fyrir aldarmót þá var um 26% gesta á hótelum landsins Íslendingur. Hlutfallið var komið undir fimmtung árið 2001 en fram að hruni þá fór vægi íslenskra gesta vaxandi á ný. Fjölgun ferðamanna sem hefur verið um 20 til 30% milli ára, þá hefur vægi íslenskra gesta minnkað talsvert.

Ekki sama uppi á teningnum í Skandinavíu

Áhugavert er að bera hlutfall innlendra hótelgesta saman við Norðurlöndin, þar sem að í Danmörku, þá eru til að mynda 54% hótelgesta danskir og hlutdeild heimamanna enn hærri í Noregi og Svíþjóð.

Líklega hefur stærð landanna mikið að segja hvað þetta varðar, en einnig virðist það vera raunin að heimamarkaðurinn er þýðingarmeiri fyrir skandinavíska hótelstjóra en þá íslensku samkvæmt gistináttatalningum hagstofa þessara landa.

Svipuð þróun í flugferðum

Jafnvel þó að Íslendingar ferðist meira, þá hefur hlutfall Íslendinga í vélum Icelandair einnig minnkað umtalsvert. Árið 2006 voru farþegar búsettir á Íslandi sem flugu með Icelandair til að mynda 28%.

En það hlutfall er helmingi lægra og aðeins sjöunda hvert sæti í þotum flugfélagsins er skipað Íslendingi.