Hlutfall kvenna í stjórnum þeirra sextán fyrirtækja sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar er nú 45% og hefur aldrei verið hærra. Þetta kemur fram í tölum Evrópuráðsins sem eru teknar saman tvisvar á ári um þau félög sem eru í úrvalsvísitölu hvers lands, en fjallað er um málið í Viðskipta-Mogganum í dag.

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja eykst um 2% milli ára og konur eru í meirihluta í fjórum fyrirtækjum, Eik, Högum, TM og HB Granda. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja árið 2007 var einungis 10% en fór ört hækkandi á árunum eftir hrun. Frá því að lögfest var 40% lágmarkshlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja árið 2012 þá hefur hlutfallið verið yfir því lágmarki.

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja er hæst á Íslandi í tölum Evrópuráðsins, en eins og áður sagði er hlutfallið hér á landi 45%. Í Noregi er hlutfallið 39%, Svíþjóð 33%, Finnlandi 29% og aðeins 26% í Danmörku.