*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 9. maí 2018 11:49

Hlutfall kvenna óbreytt í þrjú ár

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja náði hámarki í 33% árið 2014, ári eftir að lög um kynjakvóta tóku gildi.

Ritstjórn
Getty Images

Í lok árs 2017 voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá að því er Hagstofan greinir frá. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var á bilinu 21,3% til 22,3% á árunum 1999 til 2006, hækkaði svo í 25,5% árið 2014, og hefur verið um 26% síðustu þrjú ár.

Árið 2017 voru konur 32,6% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri, líkt og árin tvö þar á undan. Til samanburðar var hlutfall þeirra í stjórnum stórra fyrirtækja 12,7% árið 2007 og 9,5% árið 1999.

Kynjakvótar tóku gildi 2013

Árið 2010 voru samþykkt lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera yfir 40% í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn, og tóku þau að fullu gildi í september 2013.

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 launþega náði hámarki 33,2% árið 2014, en hefur heldur farið lækkandi síðan. Hins vegar stendur hlutfallið nánast í stað milli ára í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega, eða í 25,7%.

Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra stendur í stað milli ára, eða í 22,1% en frá 1999 varð hægfara aukning fram til ársins 2016. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 23,9% í lok árs 2017, sem er það sama og árið 2016.

Stikkorð: kynjakvótar Hagstofan Konur karlar