*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 8. febrúar 2021 15:44

Hlutfall nýbygginga ráðið sveiflum

Íbúðaverð hækkaði frá 0% í Grafarvogi til 11% í Árbæ milli ára í fyrra. Hækkunin var nátengd hlutfalli nýbygginga.

Ritstjórn
Vægi nýbygginga í heildarsölu hvers hverfis er nátengt verðhækkun milli ára.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Íbúðaverð hækkaði mest í Árbænum á höfuðborgarsvæðinu milli 2019 og 2020, um rúm 11%. Minnst var hækkunin í Grafarvogi, en þar var verð svo til óbreytt. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Mismikil sala nýbygginga er gefin sem hugsanleg skýring á þeim mikla mun á hækkun sem mælist milli hverfa. Hækkanir eru sagðar nokkuð tengdar vægi nýbygginga í sölu, en sem dæmi tífaldaðist það hlutfall úr 2% í 20% fyrir Árbæinn.

Meðalhækkun á höfuðborgarsvæðinu var 5%, en hún skiptist nokkuð misjafnt milli hverfa. Á eftir Árbænum kom Mosfellsbær með 8,4% hækkun, Grafarholt og Hlíðar með um 8%, og eldri hluti Kópavogs (vestur- og austurbær, Hjallar og Smárar) með 7,6%.

Vesturbær Reykjavíkur hækkaði næstminnst, en þó mun meira en Grafarvogurinn, um 2,5%, en þar á eftir koma Seltjarnarnes með 2,8%, Breiðholt með 3% og Garðabær með 3,3%. Nokkuð stökk er í næsta hverfi fyrir ofan en það er nýrri hluti Kópavogs, Sala-, Linda- og Vatnsendahverfi með 4,9% eða rétt um meðalhækkun höfuðborgarsvæðisins.

Enn er fermetraverð hæst í miðbæ Reykjavíkur, þótt hækkunin hafi aðeins numið 5,4%, en þar næst koma Vesturbær Reykjavíkur, og Garðabær, sem einnig hækkuðu mjög lítið, eins og fram kom að ofan.

Svokallað miðborgarálag er því sagt hafa farið lækkandi síðustu ár. Íbúðir í fjölbýli voru að jafnaði fimmtungi ódýrari utan miðbæjarins en innan, samanborið við 30% árið 2015.

Stikkorð: Hagsjá