*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 6. nóvember 2020 08:20

Hlutfall starfandi ekki lægra í níu ár

Meðalfjöldi vinnustunda hefur fækkað milli ára og atvinnuleysi eykst. Um 3.100 laus störf voru á íslenskum vinnumarkaði á síðasta ársfjórðungi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77% á þriðja ársfjórðungi 2020 og hefur það ekki verið lægra síðan árið 2011, þegar það var 76,3%. Alls var fjöldi starfandi fólks um 201.400 á þriðja ársfjórðungi sem er nálægt því að vera sami fjöldi og á þriðja ársfjórðungi 2019.

Fjöldi starfandi í fullu starfi dróst saman um 2.900 manns milli ára, af starfandi fólki voru 77,5% í fullu starfi sem er 1,3% lækkun milli ára. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Meðalfjöldi vinnustunda á viku var 39,4 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni. Stundirnar voru 35,6 hjá konum og 42,3 hjá körlum. Meðalfjöldi vinnustunda var 40,8 klukkustundir á þriðja ársfjórðungi 2019.

Á síðasta fjórðungi var atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára 81,1% af mannfjölda, að jafnaði um 212 þúsund. Þar af töldust að meðaltali 10.700 atvinnulausir, um 5,1%. Á sama tíma voru um 3.100 laus störf á íslenskum vinnumarkaði, um 1,5% starfa. Atvinnuleysi jókst um 1,7 prósentustig milli ára.

Á aldurshópnum 16 til 24 var atvinnuleysi 7,4%. Breytingin var lítil sem engin milli ára sem skýrist meðal annars af fleira ungt fólk virðist hafa fengið sumarstarf hjá opinberum aðila en áður.

Aukinn fjöldi í fjarvinnu

Þriðjungur fólks á aldrinum 25 til 64 unnu aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima á þriðja ársfjórðungi 2020. Þar af voru 5,4% sem unnu starf sitt í fjarvinnu heima en 28,7% sem unnu stundum í fjarvinnu. 

Á sama tíma fyrra árs voru 28,7% á téðum aldri sem unnu aðalstarf sitt í fjarvinnu heima. 4,2% unnu þá starf sitt venjulega í fjarvinnu en 24,5% stundum.