Hlutfall starfsmanna í fjármálaþjónustu miðað við heildarvinnuafl er svipað mikið og það var árið 2007, að því er kemur fram í skýrslu Bankasýslu ríkisins um starfsemi bankanna.

„Ytra umhverfi fjármálafyrirtækja hefur tekið miklum stakkaskiptum frá bankahruni en lengri tíma tekur að breyta innviðum. Þrátt fyrir bankahrunið er hlutfall starfsmanna í fjármálaþjónustu sem hlutfall af heildarvinnuafli svipað og það var árið 2007 er stefnt var að því að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð,“ segir í skýrslunni. Miðað við núverandi umsvif bankakerfisins er starfsmannafjöldi mikill.

Í byrjun tíunda áratugarins var hlutfall starfsfólks í fjármálaþjónustu af heildarvinnuaflí um 3,5% en lækkaði niður í 3% um miðjan tíunda áratuginn. „Í kjölfar aukinna verðbréfaviðskipta og fjárfestingabankastarfsemi í byrjun aldarinnar fór hlutfallið upp í um 4%. Þetta hlutfall fór hratt vaxandi frá árinu 2006 og var komið í rúmlega 5% árið 2008. Ný starfsemi sem var að byggjast upp kallaði eftir aukinni menntun og sérhæfingu starfsfólks. Mikill fjöldi ungs fólks með háskólamenntun leitaði því í störf hjá bönkunum er fjárfestingabankastarfseminni óx fiskur um hrygg,“ segir í skýrslu Bankasýslu ríkisins.