Hlutfall vanskila af útlánum innlánastofnanna á þriðja ársfjórðungi á þessu ári hafa dregist saman og nema 0,9% miðað við 2,4% á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu (FME). Hlutfall vanskila var 1,6% af útlánum í árslok árið 2004.

FME segir að við útreikninga vanskilahlutfallanna sé tekið tillit til áhrifa mikillar útlánaaukningar á síðustu misserum og að aukningin kunni að koma fram í auknum vanskilum síðar.

FME segir vanskilahlutfall fyrirtækja hafi lækkað úr 1,3% í árslok 2004 í 0,7% í lok þriðja ársfjórðungs 2005. Í lok þriðja ársfjórðungs 2004 var hlutfallið 1,9%.

"Vanskilahlutfall fyrirtækja miðað við eins árs tímatöf er 1,1% samanborið við 1,8% í árslok 2004. Vanskilahlutfallið miðað við tveggja ára tímatöf er tæplega 1,6% samanborið við 2,4% í árslok 2004. Þessi hlutföll eru þau lægstu sem verið hafa á undanförnum þremur árum," segir FME

Vanskilahlutfall einstaklinga lækkaði úr 2,7% í árslok 2004 í 1,5% í lok þriðja ársfjórðungs 2005. Í lok þriðja ársfjórðungs 2004 var hlutfallið 4,5%. Vanskilahlutföll einstaklinga miðað við eins og tveggja ára tímatöf eru 3,1% og 3,8% og eru það lægri hlutföll en verið hefur á undanförnum þremur árum, samkvæmt upplýsingum frá FME.

"Hafa verður í huga við lestur yfirlitanna að í árslok hvers árs eru færð út endanlega afskrifuð útlán sem koma til lækkunar á brúttó vanskilafjárhæðum og hafa þannig áhrif á vanskil í lok fjórða ársfjórðungs og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan," segir FME.