*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 11. júní 2018 08:47

Hlutfall veðsettra hlutabréfa hækkar

Hlutfall veðsetninga af heildarmarkaðsvirði bréfa í kauphöll Nasdaq á Íslandi hefur hækkað um næstum 4 prósentustig á einu ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í yfirliti frá kauphöll Nasdaq á Íslandi sést að hlutfall veðtöku af heildarmarkaðsvirði bréfa í kauphöllinni hefur farið meira og minna hækkandi síðan um mitt síðasta ár.

Hlutfall markaðsvirðis veðsettra bréfa í kerfum Nasdaq deilt með heildarmarkaðsvirði félaganna hefur hækkað úr rétt tæpum 10% í lok júní 2017 upp í tæplega 14% í lok maí.

Um er að ræða punktyfirlit sem sýnir stöðuna í lok hvers mánaðar síðustu 12 mánuði, og á því tímabili sést nokkuð samfeld hækkun. Hins vegar er líka hægt að sjá stöðuna í lok árs 2014, 2015 og 2016 og þá lækkaði hlutfallið til að byrja með.

Hér má sjá hlutfallið ásamt dagsetningu, markaðsvirði veðsettra hluta, næst heildarmarkaðsvirði og loks hlutfall veðtökunnar:

 • 31.12.2014    73.293.777.030    651.319.237.881    11,25%
 • 31.12.2015    110.150.327.419    1.019.820.136.542    10,80%
 • 31.12.2016    106.644.099.809    976.619.113.682    10,92%
 • 30.6.2017    105.260.889.901    1.055.931.309.162    9,97%
 • 31.7.2017    122.926.938.609    1.077.513.300.235    11,41%
 • 31.8.2017    115.177.980.878    1.029.984.125.399    11,18%
 • 30.9.2017    111.225.067.356    1.008.482.265.519    11,03%
 • 31.10.2017    112.859.490.363    1.028.619.216.654    10,97%
 • 30.11.2017    111.415.192.126    1.017.732.035.685    10,95%
 • 31.12.2017    108.791.925.162    819.936.901.545    13,27%
 • 31.1.2018    113.937.573.690    868.274.417.067    13,12%
 • 28.2.2018    118.911.412.264    871.237.362.738    13,65%
 • 28.3.2018    119.105.052.402    879.766.906.715    13,54%
 • 30.4.2018    122.634.054.585    881.492.076.560    13,91%
 • 31.5.2018    119.027.702.383    868.838.958.612    13,70%

Gögnin byggja á upplýsingum um hluti sem teknir hafa verið til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland og First North Iceland og eru rafrænt skráðir hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. Upplýsingarnar taka því til allra félaga á hlutabréfamörkuðum Nasdaq Iceland nema Sláturfélags Suðurlands svf. segir í fréttatilkynningu frá kauphöllinni.

Gögn Nasdaq verðbréfamiðstöðvar sýna einungis beina veðsetningu þar sem veð í verðbréfi hefur verið skráð á reikning í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og nýtur þannig réttarverndar skv. ákvæðum laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Gögnin taka því hvorki tillit til þess að lánveitandi gæti haft veð í öllum eigum lántakanda, þar á meðal hlutabréfum, né innihalda þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga eða annarra afleiðna. Loks er rétt að taka fram að gögnin veita engar vísbendingar um veðþekju. 

Stikkorð: hlutabréf Nasdaq Kauphöllin