Stjórn Marel hf hefur ákveðið að nýta heimild í samþykktum til að hækka hlutafé félagsins um 127.016.732 hluti, segir í tilkynningu Kauphallarinnar

Þar af verða 52.016.732 hlutir afhentir seljendum Scanvægt International A/S sem hluti af greiðslu fyrir alla hluti þeirra í Scanvægt, samanber tilkynningu til Kauphallarinnar 8. ágúst síðastliðinn.

Fjárfestum verða boðnir til kaups 75.000.000 hlutir í útboði. Hlutirnir verða boðnir á genginu 74 krónur fyrir hvern hlut og heildarsöluvirði nýrra hluta er því 5.550 milljónir króna. Tilgangur útboðsins er að styðja við frekari vöxt Marel, segir í tilkynningunni.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. hefur umsjón með útboðinu og hefur bankinn sölutryggt það að fullu miðað við útboðsgengi.

Hlutafjárútboðið hefst 13. september næstkomandi.

"Ef útboðið heppnast vel, eins og góðar líkur eru á, mun flot og seljanleiki á bréfum félagsins aukast sem er jákvætt fyrir hluthafa og markaðinn almennt en viðskipti á bréfum í Marel hafa ekki verið mikil undanfarið enda eignarhald þröngt," segir greiningardeild Glitnis.