Á hluthafafundi Teymis í dag var fallist á að leita nauðasamnings við kröfuhafa félagsins til þess að ráða bót á fjárhagslegri stöðu þess og forða félaginu frá gjaldþroti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar. Einnig var fallist á að hlutafé félagsins yrði lækkað að fullu, þ.e. úr kr. 3.048.937.613 í kr. 0, til að mæta því tapi sem orðið hefur á rekstri félagsins undanfarna mánuði.

Þá var samþykkt að hlutafé hlutafé félagsins verði hækkað um kr. 4.000.000, að nafnverði á genginu 1,0. Hluthafar félagsins féllu frá forkaupsrétti sínum að hækkuninni, en Endir ehf. og Botni ehf. skrifuðu sig fyrir allri hlutafjárhækkuninni.

Einnig var fallist á það að fella niður heimildir stjórnar til hækkunar hlutafjár og sömuleiðis var fallist á að grein í samþykktum félagsins yrði breytt þannig að stjórn félagsins skuli skipuð þremur mönnum kjörnum á hluthafafundi til eins árs í senn.

Þá fór fram stjórnarkjör á fundinum. Í stjórn félagsins voru kjörnir Gunnar Þór Ásgeirsson, Kristinn Hallgrímsson og Lúðvík Örn Steinarsson.