Það er núna undir hluthöfum ABN Amro komið hvort gengið verði að yfirtökutilboði hópsins sem samanstendur af Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis og Santander eða því samkomulagi sem hollenski bankinn hafði gert við Barclays 23. apríl síðastliðinn. Sumir sérfræðingar telja hins vegar að ekki sé loku fyrir það skotið að RBS-hópurinn muni jafnvel á næstu dögum gera aðra lokatilraun til að komast yfir ABN Amro og leggja fram yfirtökutilboð beint til hluthafa ABN. Stjórnendur ABN höfnuðu á sunnudaginn tilboði RBS-hópsins í bandaríska bankann LaSalle upp á 24,5 milljarða evra, en það var gert með því skilyrði að ABN myndi að auki fallast á yfirtökutilboð hópsins í hollenska bankann upp á samtals 72 milljarða evra.

ABN og breski bankinn Barclays þurfa núna að sannfæra hluthafa ABN um að hagsmunum þeirra verði best borgið með því að fallast á 67 milljarða evra yfirtökutilboð Barclays, sem lagt var fram í síðasta mánuði. Aftur á móti munu hin stirðu samskipti sem hafa ríkt á milli stjórnenda ABN og hluthafa bankans undanfarna daga og vikur ekki hjálpa til í því samhengi. Hópur hluthafa ákvað að kæra söluna á LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarð evra til hollenskra dómstóla, sem dæmdi þeim í hag á fimmtudaginn þegar hann úrskurðaði að ABN þyrfti að stöðva söluna á LaSalle. Ekki er heldur langt síðan að breski vogunarsjóðurinn The Children Investment Fund´s, sem á 1% hlut í ABN Amro, kallaði eftir því að framkvæmdastjórinn, Rijkman Groenink, yrði rekin úr starfi fyrir að hafa ekki hagsmuni hluthafa að leiðarljósi.

Í rökstuðningi ABN fyrir því að hafna tilboði RBS-hópsins var meðal annars bent á það að hópurinn hefði ekki veitt hollenska bankanum nægilegar upplýsingar um þau atriði sem hann hefði gert athugasemdir við varðandi yfirtökutilboðið. Ekki er þó víst að ABN fari þar með rétt mál. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal hefur eftir heimildarmönnum sem vel þekkja til málsins að RBS-hópurinn hafi komið til móts við næstum allar þær kröfur sem ABN hafi gert. Að auki séu skilyrðin sem hópurinn hafi sett í yfirtökutilboðinu í raun verið mjög áþekk þeim sem ABN féllst á þegar gert var samkomulag við Barclays.