Bandaríski tæknirisinn Apple situr á tæpum 98 milljörðum dala af lausafé. Það jafngildir rúmum 12.300 milljörðum íslenskra króna sem er eitthvað um sjöföld landsframleiðsla Íslands. Tim Cook, sem tók við forstjórastólnum af Steve Jobs í fyrra, og fjármálastjórinn Peter Oppenheimer ætla að fara yfir stöðuna á símafundi í dag. Erlendir fjármálasérfræðingar og fjölmiðlar segja ekki útilokað að þeir muni greina frá því að fyrirtækið opni frá sjóðnum og greiði hluthöfum út arð.

Bloomberg-fréttaveitan segir í frétt um málið að Steve Jobs hafi haldið fast um sjóði Apple og verið tregur til að láta hluta af því í hendur hluthafa. Þeir hluthafar sem áttu hlutabréf Apple á þarsíðasta áratugi fengu síðustu arðgreiðsluna árið 1995 og síðan ekki söguna meir. Arðgreiðslan hljóðaði þá upp á 12 sent á hlut. Segja má að Apple hafi verið dvergur á þeim tíma en markaðsverðmæti fyrirtækisins nam 491 milljónum dala. Tækjavörur á borð við iPod, iPhone og iPad höfðu þá ekki litið dagsins ljós. Apple setti þriðju kynslóð iPad-spjaldtölvunnar á markað fyrir helgi.

Apple og Google eru einu fyrirtækin á bandarískum hlutabréfamarkaði sem í dag eru metin á meira en 100 milljarða dala sem ekki greiða hluthöfum sínum arð.

Í frétt Bloomberg er fjallað um þá pælingu að hluthafar geti átt von á arðgreiðslu upp á 11,71 til 17,57 dali á hlut. Það jafngildir á bilinu 2% til 3% af verðgildi hvers hlutar sem stóð í 585,57 dölum á hlut við lokun markaða á föstudag. Til samanburðar greiðir Microsoft hluthöfum 2% af markaðsgengi hluta í félaginu.