Hluthafar í bandaríska fjárfestingabankanum Bear Stearns hafa samþykkt yfirtökutilboð J.P. Morgan í félagið.

Reuters fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir talsmanni Bear Stearns. Eins og kunnugt er lenti Bear Stearns í erfiðleikum um miðjan mars og þurfti aðstoð Seðlabanka Bandaríkjanna og JP Morgan til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Samkomulag náðist um að JP Morgan mundi greiða 2 dali fyrir hlutinn í Bear Stearns, sem hafði nokkrum dögum áður staðið í 35 dölum eftir að hafa fallið hratt í verði.

Margir hluthafar Bear Stearns voru ósáttir við tilboð JP Morgan og höfðu hótað að berjast gegn samkomulaginu og var því tilboðið hækkað í 10 dali á hlut.