Á aðalfundi Borgunar, sem fram fór í febrúar síðastliðnum, var ákveðið að greiða 800 milljónir króna til hluthafa félagsins. Þetta staðfestir Haukur Oddsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Kjarnann .

Þar er greint frá því að þetta sé í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem arður er greiddur út úr fyrirtækinu, en hagnaður þess nam 1,4 milljörðum króna á síðasta ári og var eigið fé um 4 milljarðar í lok ársins.

Landsbanki Íslands seldi í lok síðasta árs 31,2% hlut sinn í fyrirtækinu, en salan var á sínum tíma umdeild þar sem hluturinn var ekki auglýstur sérstaklega til sölu. Íslenska ríkið er stærsti hluthafi Landsbankans með 98% hlut í bankanum.