Framtakssjóður Íslands (FSÍ) greiddi hluthöfum þrjá milljarða í arð og færði niður hlutafé um tæplega sex milljarða króna til viðbótar í desember. Samsvarandi upphæð var greidd til hluthafa, samkvæmt samþykkt hluthafafundar sem haldinn var 19. desember. Á árinu innleysti FSÍ ríflega níu milljarða króna með sölu eigna og var ákveðið að útdeila því til hluthafa.

Þá voru samþykktar breytingar á formi FSÍ úr einkahlutafélagi í hlutafélag. Að sögn Hafliða Helgasonar, upplýsingafulltrúa FSÍ, er breytingin fyrst og fremst formsatriði en sjóðinum var ráðlagt að breyta félaginu í hlutafélag.

FSÍ er að stærstum hluta í eigu Landsbankans (27,6%) og sextán lífeyrissjóða. Brynjólfur Bjarnason er framkvæmdastjóri FSÍ.