Gnúpur keypti eigin hlutabréf og greiddi hluthöfum félagsins á árinu 2007 þrjá milljarða króna. Þegar halla tók undan fæti hjá fjárfestingarfélaginu síðar sama ár urðu þessir sömu hluthafar að greiða til baka 4,5 milljarða króna eða sem nemur 1,5 milljarði meira en þeir fengu í sinn hlut sama ár. Það dugði ekki til og misstu hluthafar félagið til kröfuhafa í byrjun árs 2008.

Þetta kemur fram í ársreikningi Gnúps fyrir uppgjörsárið 2007 þegar félagið tapaði 33 milljörðum króna.

Gnúpur var stofnað í október 2006 upp úr sölu  Kristins Björnssonar, fyrrverandi forstjóra olíufélagsins Skeljungs,  og útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar á tæpum fjórðungshlut í Straumi-Burðarási til FL Group. FL Group greiddi fyrir hlutinn með hlutabréfum upp á 47 milljarða króna, annars vegar með bréfum upp á 35 milljarða í FL Group og tólf milljarða  í Kaupþingi. Fjölskylda Kristins átti 46,2 prósenta hlut á móti jafn stórum hlut Magnúsar, konu hans og bróður. Afgang átti Þórður Már Jóhannesson, þá forstjóri Gnúps sem verið hafði forstjóri Straums þegar þeir Kristinn og Magnús voru hluthafar í fjárfestingarbankanum.

Gnúpur átti þegar mest lét 20% hlut í FL Group og var stærsti hluthafinn og um skeið þriðji helsti hluthafi Kaupþings. Félagið átti sömuleiðis hlutabréf í Glitni og Exista auk skuldabréfa í peningamarkaðssjóðum.  Gnúpur var svo eitt fyrsta fyrirtækið á fjármálamarkaðnum íslenska til að fara á hausinn í aðdraganda hrunsins.

Vakti athygli að veikleikum bankanna

Gnúpur var af þessum sökum mjög tengdur fjármálageiranum og hafði nokkuð að segja um þróun mála í honum, bæði gengi hlutabréfa í bönkunum og peningamarkaðssjóðum. Þegar hluthöfum tókst ekki að koma rekstrinum fyrir horn með hlutafjáraukningu sneru viðskiptabankarnir þrír auk Icebank bökum saman og gerðu félagið hljóðlega upp. Þar á meðal tóku þeir yfir eignir Gnúpsi en beittu sér ekki fyrir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Það sem eftir stóð af Gnúpi endaði í þrotabúi Glitnis. Fjallað er um Gnúp í rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir m.a. að björgunaraðgerðin hafi vakið athygli erlendra fjárfesta á veikleikum í íslensku bankakerfi.

Uppgjör Gnúps stendur enn yfir. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun tapaði félagið tveimur milljörðum króna árið 2010 og bætist það við 1,1 milljarðs króna tap árið 2009.