Færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum, sem skráð er í Kauphöll Íslands hóf í dag olíuframleiðslu á Chestnut svæðinu en þetta er í fyrsta skipti sem félagið hefur að vinna olíu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atlantic Petroleum. Félagið hefur stundað boranir og olíuleit víðsvegar í Atlantshafinu.

Chestnut svæðið er í breskri lögsögu og á Atlantic Petroleum um 15% hlut í svæðinu sem kallast UK Block 22/2a.

Wilhelm Petersen, forstjóri Atlantic Petroleum segir að um sögulegan viðburð sé að ræða í sögu félagsins. Hann segir að hér sé um fyrsta olíusvæðið að ræða sem félagið hefur getað unnið olíu úr.

„Atlantic Petroleum og hluthafar þess hafa beðið eftir þessum degi. Þetta markar upphaf nýs tíma hjá félaginu,“ segir hann í tilkynningu og bætir því við að hér sé um verðmætt verkefni að ræða en stefnan er að framleiða á bilinu 1.300 til 2.100 tunnur á dag á svæðinu.