Þeir sem eiga hlutabréf í Högum eiga að öllu óbreyttu að fá 45 aura á hvern hlut þegar arður verður greiddur út úr fyrirtækinu eftir áramót. Stefnt er að því að auka arðgreiðslur árlega eftir því sem vaxtaberandi skuldir Haga lækka.

Þetta gæti jafngilt í kringum 5% af hlutafjáreign viðkomandi, hugsanlega fimm þúsund krónur fyrir hverjar hundrað þúsund sem viðkomandi á í félaginu. Fyrirvara verður að hafa á útreikningunum enda á enn eftir að ákveða hver úthlutun verður í kjölfar hlutafjárútboðs í Högum. Útboðinu lauk klukkan 16 í dag.

Í skráningarlýsingu Haga kemur fram að stjórn félagsins muni leggja til við næsta aðalfund í vor að arður upp á 45 aura á hlut verði greiddur út vegna yfirstandandi rekstrarárs sem lýkur eftir áramótin.

Í lýsingunni segir: „Lögð er áhersla á að Hagar skili til hluthafa beint eða óbeint þeim verðmætum sem skapast í rekstrinum á hverju ári. Í því skyni hefur félagið þrjá valkost: Beinar arðgreiðslur, niðurgreiðslu vaxtaberandi lána og kaup á eigin hlutabréfum sé markaðsverð þeirra undir sannvirði þeirra [...] Þeir fjármunir sem verða til í rekstrinum umfram nauðsynlegar fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og framangreinda arðgreiðslu verði nýttir til niðurgreiðslu vaxtaberandi lána nema markaðsaðstæður bjóði upp á aðra og betri nýtingu þeirra í þágu hluthafa.“