Hluthafar í N1 fá í dag greiddar út 3.859 milljónir króna vegna hlutafjárlækkunar sem samþykkt var í hlutahafafundi í október. Eigið fé félagsins var 14,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 52% fyrir hlutafjárlækkunina, en hlutfallið fer í 42% eftir lækkunina.

Stærsti einstaki hluthafi N1 miðað við 20. nóvember síðasliðinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 14,2% hlut. Fær sjóðurinn því tæpar 550 milljónir króna í sinn hlut miðað við vægi eignarhlutar hans. Þar á eftir kemur Gildi lífeyrissjóður með 7,6% hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 6,9% og Stafir lífeyrissjóður með 5,6%.