Hluthafar danska verslunarrisans Intersport Danmark A/S hafa samþykkt tilboð íslensks fjárfestahóps í félagið. Tilboðið er tvískipt, annars vegar er boðið íIntersport-fyrirtækið og hins vegar í verslanir félagsins. 100% hluthafa í fyrirtækinu samþykktu tilboðið og 89% hluthafa í verslunarrekstrinum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Fjárfestahópurinn samanstendur af fjárfestingarsjóðnum Kcaj og Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka. Kcaj er fjárfestingarsjóður í umsjón fjárfestingarfélagsins Arev sem er að stærstum hluta í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar. Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Arev verðbréfa hf., staðfest niðurstöðuna í samtali við Viðskiptablaðið í gær en að sögn hennar er framundan áreiðanleikakönnun sem getur tekið nokkurn tíma þar sem hún nær til hverar og einnar verslunar. Að tilboðinu koma 45 eigendur sem eiga 87 verslanir Intersport í Danmörku.

Intersport hefur verið í söluferli undanfarið og eftir að nokkrir aðilar lýstu yfir áhuga sínum var ákveðið að ganga til viðræðna við íslensku fjárfestana. Kcaj hefur fjárfest töluvert í smásöluverslun í Bretlandi og meðal eigenda eru Máttur og JST Holding ehf., sem er í eigu Jóns Schevings Thorsteinssonar.