Alls voru í árslok 2014 rúmlega 21 þúsund hluthafar í íslensku félögunum þrettán sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar og fjölgaði þeim um rúm 7% milli ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Tekið er fram að þarna séu sumir hluthafar vissulega margtaldir enda sé algengt að eigendur hluta í Kauphöllinni eigi í fleiri en einu félagi.

Össur hefur flesta hluthafa eða 3.300 talsins. Aftur á móti er einungis um þriðjungur hlutabréfa fyrirtækisins í eigu innlendra aðila, en bréf félagsins eru einnig skráð í Danmörku.

Að teknu tilliti til þess má gera ráð fyrir að flestir innlendir fjárfestar séu í Sjóvá, eða um 3.000 talsins, en bréf félagsins voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni fyrir tæpu ári síðan. Fæstir voru hluthafarnir í Nýherja, eða 329 talsins og fjölgaði þeim um 51 milli ára.

50 þúsundur fjölskyldur eiga hlutabréf

Einnig kemur fram að hlutafjáreign almennings á Íslandi fari að mestu fram í gegnum lífeyrissjóði. Beint eignarhald almennings á fyrirtækjum sé þó algengara en fjöldi hluthafa Kauphallarfélaganna gefi til kynna.

„Þannig sýna samandregnar niðurstöður skattframtala að um 50 þúsund fjölskyldur á Íslandi eigi hlutabréf og hefur sá fjöldi farið vaxandi frá árinu 2011. Hér getur verið um fjölbreytta flóru fyrirtækja að ræða, frá litlum rótgrónum fjölskyldufyrirtækjum til nýsköpunarfyrirtækja í eigu nokkurra vina og vandamanna eða eignarhluta í fyrirtækjum sem eitt sinn voru mikils virði en mega nú muna nú fífil sinn fegurri og bíða slita.“