Hluthafar JPMorgan Chase kusu gegn starfskjarastefnu fjárfestingabankans á aðalfundi í gær. Um er að ræða fyrsta sinn sem hluthafar bankans kjósa gegn tillögu um starfskjarastefnu frá því að kosning um þennan lið var tekinn upp árið 2009.

Kosningin er hins vegar ekki bindandi en bankinn sagði þó í tilkynningu til kauphallarinnar fyrir aðalfundinn að starfskjaranefnd bankans muni taka niðurstöðu kosningarinnar með í reikninginni við launaákvarðanir í framtíðinni.

Í umfjöllun Financial Times segir að fjárfestar höfðu sérstaklega áhyggjur af launum og hlunnindum forstjórans Jamie Dimon. Stjórn JPMorgan ákvað í fyrra að veita Dimon, sem gegnir einnig stjórnarformennsku hjá bankanum, „sérstök fríðindi“ til að tryggja að hann myndi stýra bankanum í mörg ár til viðbótar. Samkvæmt frétt CNBC eru réttindi hans, sem byggja á þróun hlutabréfaverðs bankans á næstu árum, metin á 52,6 milljónir dala eða um 7 milljarða króna.

Dimon sagði á aðalfundinum í gær að stjórnin taki skilaboðum hluthafanna alvarlega og muni áfram eiga í virku samtali við þá.

Einungis 31% hluthafa greiddu atkvæði með tillögu stjórnarinnar. Til samanburðar kusu 90% fjárfesta með starfskjarastefnu bankans í fyrra. Fyrir fundinn í gær hafði hlutfall hluthafa sem kusu með slíkri tillögu farið lægst í 61,4% árið 2015.