Tímamót urðu á ársfundi bandaríska risabankans Citigroup í gær þegar meirihluti hluthafa felldi tillögu þess efnis að verðlauna bankastjórann Vikram S. Pandit og fimm samstarfsmenn hans með háum bónusgreiðslum. Bankastjórinn á von á að fá 15 milljóna dala, jafnvirði 1,9 milljarðar króna, vegna árangursins í fyrra.

Niðurstaða hluthafakosningarinnar hefur ekki úrslitakosti og verður ekki til þess að breyta starfskjarastefnu bankans. Í netútgáfu bandarísku fréttastofunnar CNBC er haft eftir Richard D. Parson, fráfarandi stjórnarformanni bankans, að stjórnin sem eftir sitji ætti að taka vilja hluthafanna til greina.

Niðurstaðan lýsir engu að síður breytt viðhorf til kjara æðstu manna í fjármálageiranum. Í netútgáfu vikuritsins Times segir að ákvörðun hluthafanna beri keim af áhrifum Occupy Wall Street-hreyfingarinnar. Aðrir fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið segja niðurstöðuna kunna að þrýsta á stjórnir annarra banka og fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir launaskrið hjá æðstu stjórnendum.

CItigroup fetaði í sömu fjárhagsvandræði og fjöldi banka í hinum vestræna heimi haustið 2008. Bandaríska ríkið að koma honum til bjargar gegn því að eignast tæpan 40% hlut í honum. Eftir útgáfu hlutafjár og aðkomu nýrra hluthafa að bankanum tókst að greiða öll ríkislán að fullu í desember árið 2010.

Citigroup hagnaðist um 11,3 milljarða dala á síðasta ári og var afkoman undir væntingum.