Hluthafar Playboy hafa samþykkt yfirtökutilboð Hugh Hefner, stofnanda og stærsta eigenda félagsins, eftir að hann hækkaði kauptilboð um 12%. Hefner stofnaði herratímaritið Playboy árið 1953.

Hefner býður 6,14 dali á hlut en Playboy er skráð í kauphöll. Hann á fyrir um 70% af A-hlutabréfum félagsins og um 28% af B-hlutabréfum þess. FriendFinder Network, félag sem á og rekur dónaritið Penthouse, hafði áður boðið 6,25 dali á hlut. Félagið verður skráð af markaði í kjölfar yfirtöku Hefner.

Á vef BBC segir að miðað við kauptilboð Hugh Hefner er markaðsvirði félagsins um 210 milljónir dala, jafnvirði um 25 milljarða króna.